Gjafasæði, kaup og meðferðir

Boðið er upp á meðferðir með gjafasæði.

Meðferðirnar henta pörum þar sem karlmaðurinn hefur engar sáðfrumur, samkynja pörum og einhleypum konum.

Hægt er að velja gjafasæði sem annars vegar er órekjanlegt eða rekjanlegt. Börn getin með rekjanlegu gjafasæði geta leitað upplýsinga um gjafann þegar þau eru orðn sjálfráða. Einnig er mögulegt að nota persónulegan sæðisgjafa. Notkun á persónulegum gjafa er ferli sem tekur a.m.k. 6 mánuði.

Livio tekur einungis á móti sæði frá European Sperm Bank sem er viðurkenndur sæðisbanki. Sæðisgjafarnir hafa allir verið skoðaðir m.t.t. smit- og erfðasjúkdóma.


Kaup á sæði

Skilyrði fyrir því að hefja meðferð er að sæðið sé komið til okkar og því mikilvægt að panta sæði tímanlega, fyrir 25. hvers mánaðar. Sendingar af gjafasæði koma einu sinni í mánuði, yfirleitt í byrjun hvers mánaðar og gera þarf ráð fyrir viku í umsýslu eftir að stráið berst til landsins.

Þegar pantað er frá European Sperm Bank er ferlið eftirfarandi:

  1. Farið inn á heimasíðu bankans gegnum þennan hlekk. (Ef hlekkurinn virkar ekki prufið að opna hann með öðrum vafra t.d. Internet Explorer)
  2. Þar er svo hægt að skoða það úrval sem er í boði hverju sinni og velja gjafa, athugið að velja IUI einingar, MOT 20.
  3. Gengið er frá pöntun og greiðslu á heimasíðu sæðisbankans og veljið ’bulk shipment’.
  4. Auk gjalds fyrir gjafasæði skv. gjaldskrá sæðisbankans bætist við verðið virðisaukaskattur (24,5%), sendingarkostnaður og umsýslugjald við komuna til landsins. Geymslugjald fyrir fyrsta árið er innifalið í umsýslugjaldinu. Ef geyma á strá lengur en eitt ár er greitt geymslugjald árlega skv. verðskrá.
  5. Við kaup á gjafasæði í fyrsta sinn þarf að greiða fyrir þungunarrétt (sjá hér fyrir neðan).

Allar fyrirspurnir varðandi gjafa, magn, sendingar, framboð, þungunarrétt og rannsóknir á gjöfum sendast beint á bankann: info@europeanspermbank.com

Þungunarréttur (pregnancy slot)

Við notkun á gjafasæði er nauðsynlegt að tryggja sér svokallaðan þungunarrétt fyrir hvern sæðisgjafa. Það er eins konar trygging fyrir því að ekki geti fleiri en tvær fjölskyldur á Íslandi átt börn með sama gjafa. Við kaup á gjafasæði þarf því í upphafi að að greiða fyrir þungunarrétt. Þegar þungunarréttur hefur verið tryggður er hægt að nota viðkomandi gjafa eins oft og þörf krefur, að því gefnu að til sé sæði frá viðkomandi gjafa í bankanum eða að skjólstæðingur eigi fleiri strá frá sama gjafa. Ef barn verður til helst þungunarrétturinn og tryggt er að ekki verði til börn frá sama gjafa nema í mesta lagi í einni annarri fjölskyldu hér á landi. Ef meðferðir leiða ekki til fæðingar barns er hægt að skila þungunarréttinum og fá hann endurgreiddan, eða flytja hann yfir á annan gjafa. Til þess að skila eða skipta þarf að fá staðfestingu frá okkur um að ekki hafi orðið þungun, né séu fósturvísar eða gjafasæði í frysti, sem þið sendið sæðisbankanum. Séu frumur í frysti þarf fyrst að óska eftir eyðingu, sjá undir eyðublöð hér á síðunni. Staðfestinguna má fá með því að senda okkur tölvupóst.